Um okkur

Samstarf Óskar, Sigrúnar og Garðars hófst sumarið 2020 í miðjum heimsfaraldri. Hvati að þessu samstarfi var sú glufa sem hafði opnast í kjölfar faraldurs, forsendur höfðu brostið, veröld hafði snúist á hvolf. Á fordæmalausum tímum var brýnt að taka stöðuna og grípa tækifærið sem fólst í þessari glufu. Hljómgrunnur var fundinn. Samhljómur varð meðal listamanna, hönnuða og arkitekta um að þörf væri á skapandi og gagnrýnum vettvangi. Með Suðurlandstvíæringi var lagður grunnur að listhreyfingu sem hefur að markmiði að rýna í tengsl okkar við umheiminn og framtíðina.





Garðar Eyjólfsson er hönnuður og dósent við meistaranámsbraut í hönnun við Listaháskóla Íslands. Hann var fagstjóri í vöruhönnun 2012-2017 í Listaháskóla Íslands og fagstjóri í meistarnámi í hönnun 2017-2020 hjá sömu stofnun. Þá kennir Garðar einnig við ýmsa listaháskóla í Evrópu. Garðar hefur leitast við að halda góðu jafnvægi milli akademíu og persónulegra verkefna; sem rannsakandi, sýninga- og viðburðarstjóri, leiðbeinandi vinnusmiðja og sem sérfræðingur fyrir stofnanir og fyrirtæki. Garðar er virkur rannsakandi í hönnun og leiðir rannsóknarhóp um mildun og aðlögun (e. Mitigation and Adaption). Sem einn af þremur sýningarstjórum, ásamt Sigrúnu Birgisdóttur og Ósk Vilhjálmsdóttur , mun Garðar hafa umsjón með fyrirlestradagskrá, viðburðarstjórnun og skipuleggja einstaka leiðangra og smiðjur.

Ósk Vilhjálmsdóttir vinnur í ólíka miðla eftir því sem best hentar verkum hennar; málverk, vídeó, skúlptúr, ljósmyndir, bókverk og textar. Hún er áhugasöm um sýnileg og ósýnileg mörk, m.a. mörkin milli innan/utan, einka/opinbert, maður/náttúra, barn/fullorðinn. Undanfarin 20 ár hefur hún unnið röð verka þar sem unglingurinn er viðfangsefnið og vegur salt á jaðrinum þar sem fullorðinshugmyndir blandast bernskunni. Ósk er stofnandi og framkvæmdarstjóri Wanderlust/ Hálendisferðir og kom á lagginar Náttúruskóla fyrir börn og unglinga í samstarfi við Margréti H. Blöndal myndlistarmann. Ósk hefur skipulagt og tekið þátt í fjölda viðburða til verndar miðhálendi Íslands. Hún skipulagði leiðangra á árunum 2003-2006 um svæði norðan Vatnajökuls sem nú eru horfin undir Hálslón. Ósk hefur sýnt í söfnum og galleríum hérlendis og erlendis og haft aðsetur á vinnustofum víða um heim. Hún tók þátt í starfi Nýlistasafnsins og var formaður stjórnar þess á árunum 2000 – 2002.


Sigrún Birgisdóttir er prófessor í arkitektúr við Listaháskóla Íslands. Eftir að hafa starfað í London um árabil við kennslu og hönnun tók hún við fagstjórn í arkitektúr við Listaháskóla Íslands árið 2007. Frá 2012-2019 var hún forseti hönnunar- og arkitektúrdeildar. Sigrún hefur unnið að þróunar- og rannsóknarverkefnum sem rýna í tengsl samfélags og byggðar. Hún er einn stofnanda Vatnavina sem vann að því að þróa heildrænarlausnir fyrir ferðaþjónustu á Íslandi og byggði á að nýta náttúrulegar auðlindir á sjálfbæran máta. Á árunum 2015-2019 var hún ráðgjafi CLEVER verkefnis um eflingur skapandi greina í Ísrael hvað varðar menntun og stefnumótun, verkefnið var styrkt af EACEA og Erasmus + áætluninni. Hún stundar nú doktorsnám í menningarfræði við HÍ með áherslu á umbreytingu landsbyggðar á tímum aukinnar ferðaþjónustu á Íslandi. Sigrún hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir félög og stofnanir og verið virk í að efla hlutverk hönnunar í samfélaginu.